hópþjálfun - saman náum við betri Árangri

Aðferðir markþjálfunar eru ekki síður áhrifaríkar fyrir hópa en einstaklinga. Hópþjálfun hentar einstaklingum með sameiginleg markmið, svo sem stjórnendateymum, vinnuhópum eða deildum í fyrirtækjum sem vinna sameiginlega að því að ná settu marki. Jafnframt getur hópþjálfun verið áhrifarík fyrir einstaklinga sem hafa ólík persónuleg markmið ef viðfangsefnið er það sama. Sem dæmi má nefna þjálfun fyrir nýja stjórnendur, þjálfun fyrir stjórnendur sem vilja auka samskiptahæfni sína, fyrir þá sem vilja nýta tíma sinn betur og svo mætti lengi telja.

Mjög áhrifaríkt getur verið að blanda saman hópþjálfun og einstaklingsþjálfun því í hópi deila ólíkir einstaklingar reynslu sinni og þekkingu, víkka sjóndeildarhringinn og læra hver af öðrum. Jafnframt beinist þjálfunin að einstaklingsbundinni hæfni og styrkleikum hvers og eins.

Hér á eftir eru kynntar nokkrar mismunandi leiðir í hópþjálfun fyrir fyrirtæki.


stefnuhópar - ÁRANGURSRÍK INNLEIÐING STEFNU

Rannsóknir sýna að einungis um 10% fyrirtækja ná að innleiða stefnu með árangursríkum hætti. Hversu vel tekst til við að virkja alla stjórnendur og starfsmenn til þátttöku, ræður úrslitum um hvort markmið um árangur náist. Ný stefna felur oft í sér erfiðar áskoranir. Ekki síst þegar breytingar verða á skipulagi, starfsemi, gildum og þeirri menningu sem ríkjandi hefur verið á vinnustaðnum. Hér gegna góð samskipti mikilvægu hlutverki. Oft raskast valdahlutföll, nýjar boðleiðir verða til, nýir vinnuferlar og ný viðhorf mótast, jákvæð og neikvæð. Stjórnendur og starfsmenn þurfa að horfast í augu við ókunnar aðstæður og allir þurfa að læra eitthvað nýtt.

Þjálfun fyrir stefnuhópa miðar að því að auðvelda hópnum að takast sameiginlega á við óvissuna og þær áskoranir sem geta staðið í vegi fyrir því að markmið náist. Að viðurkenna og aðlagast breytingum sem ný stefna hefur í för með sér, fjarlægja hindranir þegar þær birtast, festa í sessi nýjar áherslur, aðferðir, viðhorf og hegðun sem skilar auknum árangri.


umbótahópar - AÐ GERA BETUR Í DAG EN Í GÆR

Oft er úthaldið ein helsta áskorun þeirra sem vilja með átaki gera betur. Farið er vel af stað með háar hugmyndir, skýr markmið og fullir af eldmóði en þegar á hólminn er komið, hindranirnar sýna sig og vaninn tekur við þá er oft á brattann að sækja.

Þjálfun fyrir umbótahópa miðar að því að aðstoða deildir, svið eða hópa í sérstökum umbóta- eða átaksverkefnum við að efla úthaldið og nýta þekkingu og styrkleika hópsins sem best til að finna árangursríkar lausnir, fjarlægja hindranir og ná settu marki. Hér er aðal áherslan á að gera stöðugt betur í dag en í gær og að greina og virkja alla þá þætti sem hvetja til þess.

Dæmi um umbóta- og átaksverkefni:

 • Aukin sala

 • Bætt þjónusta

 • Lækkun kostnaðar

 • Aukin skilvirkni

 • Aukin samvinna og starfsánægja

 • Heilsuefling á vinnustaðnum


breytingahópar - AÐ GERA ÖÐRUVÍSI Í DAG EN Í GÆR

Máltækið „hægara sagt en gert“ á vel við þegar talað er um breytingar. Á tímum breytinga stöndum við frammi fyrir ýmsum áskorunum og hindrunum sem varða þátttöku starfsmanna, samskipti, boðleiðir upplýsinga og starfsánægju. Breytingar eru mikil áskorun bæði fyrir stjórnendur og starfsmenn. Þær fela í sér nýjan veruleika þar sem takast þarf á við hið óþekkta, nýjar aðferðir, viðhorf og hegðun og einnig að sleppa tökum á því sem var og við þekkjum svo vel.

Þjálfun fyrir breytingahópa miðar að því að aðstoða hópinn við að undirbúa breytingarnar, fara í gegnum breytingaferlið og festa í sessi nýjar aðferðir, viðhorf og hegðun sem skila auknum árangri. Aðal áherslan er á þau lögmál og þær áskoranir sem gjarnan standa í vegi fyrir árangursríkum breytingum, geta dregið úr árangri og starfsánægju og aukið starfsmannaveltu.

Dæmi um breytingaverkefni:

 • Breytingar á vinnuferlum

 • Skipulagsbreytingar

 • Ný tækni innleidd

 • Nýtt upplýsingakerfi tekið í notkun

 • Samrunar og yfirtökur fyrirtækja

 • Nýir stjórnendur, breyttar áherslur


þemahópar - SAMEIGINLEG MARKMIÐ AÐ LEIÐARLJÓSI

Í þemahópum koma saman einstaklingar sem að öllu jöfnu starfa ekki saman sem hópur en eiga það sameiginlegt að vilja vinna að því að ná auknum árangri á ákveðnu sviði.

Hver einstaklingur í hópnum setur sér persónulegt markmið sem hann vinnur að. Hópurinn ræðir saman um viðfangsefnið og deilir upplifun sinni, þekkingu, reynslu og sigrum.

Dæmi um viðfangsefni þemahópa:

 • Þjálfun fyrir nýja stjórnendur

 • Stjórnun jafningja

 • Aukin samskiptahæfni

 • Að tjá sig í fjölmenni

 • Tímastjórnun

 • Valddreifing

 • PRO-Performa hópar (Master Mind)


Nánari upplýsingar um hópþjálfun Vendum eru veittar í gegnum netfangið vendum@vendum.is