Fyrir hverja er stjórnendaþjálfun?

Stjórnendaþjálfun með aðferðum markþjálfunar (e. executive coaching) hentar öllum stjórnendum og starfsmönnum sem vilja bæta hæfni sína og ná auknum árangri hvort sem er í lífi eða starfi. Hún hentar því jafn vel nýjum og reyndum stjórnendum þar sem hverjum og einum er mætt á þeim stað sem hann er staddur hverju sinni. Skilyrði þess að stjórnendamarkþjálfun beri árangur er að stjórnandinn sé tilbúinn til að skoða aðferðir sínar með gagnrýnum augum og reyna nýjar leiðir til að sjá hvort þær færi betri niðurstöðu.

Það er algengur misskilningur að markþjálfun sé aðeins fyrir þá sem eiga í vandræðum með störf sín. Þvert á móti hentar hún best þeim sem hafa náð árangri, vita hvað þeir geta gert og eru tilbúnir til þess að gera enn meira til að stíga skrefi nær sinni framtíðarsýn.

hvert er HLUTVERK stjórnendaþjálfans?

Stjórnendaþjálfinn gegnir fjölbreyttu hlutverki og helst ber að nefna að hann er:

 • Samstarfsmaður við að ná markmiðum og framtíðarsýn þinni í starfi og einkalífi

 • Þjálfari í samskiptum og leiðtogafærni

 • Prófsteinn við ákvarðanatöku og stefnumörkun

 • Aðhald svo þú haldir þig við efnið í vinnu að því sem skiptir þig mestu máli

 • Hvatning til að grípa til réttra aðgerða þegar þess er þörf

 • Stuðningsmaður þegar upp koma áskoranir eða erfiðleikar

 • Leiðbeinandi varðandi þróun hæfileika þinna og styrkleika

 • Lóðs á tímum breytinga

 • Aðstoðarmaður við að koma auga á og/eða skapa ný tækifæri

 • Áttaviti á tímum umbrota og óvissu

 • Spegill á kosti þína og tækifæri til vaxtar

 • Viðvörunarbjalla ef þú heyrir ekki í þinni eigin

 • Samherji sem hjálpar þér að ná fram því sem mestu máli skiptir hverju sinni.

Stjórnendaþjálfinn er EKKI ráðgjafi sem segir viðskiptavini sínum hvernig hann á að haga sínum málum, heldur notar hann sérstaka viðtalstækni og hjálpar honum þannig að finna leiðina að sínum eigin svörum.

Stjórnendaþjálfinn er EKKI sálfræðingur eða meðferðaraðili og honum ber skylda til að beina viðskiptavini sínum annað ef hann finnur að ekki séu forsendur fyrir frekara samstarfi.